Óvenju mikill vöxtur var í komum ferðamanna fjölda gistinátta og kortaveltu milli ára í nóvember sl. Það má rekja til þess að tónlistarhátíðin Iceland Airwaves var haldin í byrjun nóvember árið 2012 en hafði verið í október árin á undan.

Þetta er rifjað upp í ítarlegri skýrslu deildarinnar um vöxt og væntingar ferðaþjónustunnar sem kom út í dag en í opinberum tölum um fjölda ferðamanna sést greinilega að hátíðin hafi verið færð til.

Fram kemur í skýrslunni að hægt sé að meta undirliggjandi vöxt ferðaþjónustunnar í nóvembermánuði með því að draga frá fjölda ferðamanna og neyslu þeirra sem hingað komu gagngert til þess að fara á hátíðina.

Þannig var undirliggjandi vöxtur ferðamanna í nóvember um 43% (61% í heild), vöxtur gistinátta á hótelum um 32% (54% í heild) og vöxtur kortaveltu 22% (50% í heild). Undirliggjandi vöxtur í nóvember er töluvert yfir meðalvexti ársins í þessum flokkum.

„Atburðir á borð við Airwaves-hátíðina eru, auk þess að vera mikilvæg viðbót við tónlistarlífið sjálft, mikilvægir í því augnamiði að draga úr árstíðasveiflunni í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja,“ segir í skýrslu Landsbankans.