10 ára afmælishátíð Iceland Airwaves verður haldin í ár. Hátíðin hefur verið að stækka og eflast ár frá ári og í ár verður engin undartekning á, að sögn Eldars Ástþórssonar, skipuleggjanda hennar. Hátíðin er orðin gríðarlega stór, sérstaklega í tónlistarheiminum, meðal þeirra sem vinna með tónlist og meðal fjölmiðlamanna. Mun stærri en Eldar óraði fyrir á upphafsdögum hennar.

"Okkar markaðsaðferðir ganga mikið út á fjölmiðla og PR-mál; að vera með mikið af góðum upplýsingum, myndefni og fréttum fyrir erlenda blaðamenn og fjölmiðla," svarar Eldar spurður áherslur í markaðssetingu Iceland Airwaves.

"Þannig erum við lítið í því að kaupa auglýsingar og reiðum okkur meira á umfjöllun. Því setjum við meiri kraft og peninga í að geta veitt fjölmiðlum nægar upplýsingar, bæði um hátíðina og íslenska tónlist," segir hann.

Lögð er áhersla á alla vinkla sem mögulega er hægt að nota til að auglýsa hátíðina og skapa um leið umfjöllun og fréttir. Dæmi um slíkar markaðsleiðir eru fréttatillkynningar, öflugir póstlistar og heimsíðu hátíðarinnar.

Nýverið var staðfest dagsetningin fyrir tónlistarhátíðina í ár, en hún mun fara fram 15. til 19. október næstkomandi.