Breska matvörukeðjan Iceland bauð í allar verslanir Woolworths, 815 að tölu í ágúst síðastliðnum, en tilboðinu var hafnað, þar sem það þótti ekki ásættanlegt.  Í frétt á heimasíðu Baugs kemur fram að reiknað er með, að við kaupin bæti Iceland við sig 2.500 nýjum starfsmönnum.

Iceland hefur keypt 51 verslun, sem áður voru reknar af Woolworths verslanakeðjunni í Bretlandi. Um þriðjungur verslanana 51, sem Iceland keypti nú, eru í suðurhluta Bretlands, þar af tíu í London. Tilkynning þar að lútandi var gerð aðeins nokkrum dögum eftir að Woolworths lokaði 200 verslunum sínum vegna greiðsluörðugleika. „Við erum sátt við að geta látið hjólin snúast á ný á stöðum, sem hafa misst stóran smávörusala eins og Woolworths frá sér,“ sagði talsmaður Iceland í fréttinni.  Woolworths fór í greiðslustöðvun í nóvember síðastliðnum, en tókst ekki að finna kaupanda að fyrirtækinu.

Iceland matvörukeðjan, sem var stofnuð árið 1970, rekur þegar 682 verslanir.