Iceland Express mun frá og með næsta mánudegi, 10. mars, bjóða farþegum upp á að innrita sig í flug í gegnum vef félagsins og er það í fyrsta sinn sem íslenskt flugfélag býður upp á þann möguleika.

Farþegar sem innrita sig í gegnum vefinn sleppa við hefðbundna innritun á brottfararstað og geta þess í stað gengið beint að öryggishliði og því hefur vefinnritun talsverðan tímasparnað og þægindi í för með sér.

Til að byrja með verður vefinnritun einungis í boði fyrir farþega sem eru á leið frá Kaupmannahöfn til Íslands, en fleiri áfangastaðir munu bætast við innan skamms.

Hægt er að innrita sig á vefnum allt að 60 dögum fyrir brottför flugs að síðustu 24 klukkustundunum fyrir flug undanskildum. Innritun fer fram í gegnum einfalt innritunarkerfi á vef Iceland Express og að því loknu fá farþegarnir brottfararspjald sent í tölvupósti. Þetta brottfararspjald er svo sýnt við öryggishliðið.

„Við hjá Iceland Express leitumst stöðugt við að bæta þjónustu við farþega okkar og því er afar ánægjulegt að geta létt þeim lífið við innritunina á þennan hátt. Þetta verður án efa kærkomin nýjung fyrir þá sem vilja komast hratt og örugglega leiðar sinnar í gegnum flugstöðvarnar,“ segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express í tilkynningu.

Fyrst um sinn er vefinnritun aðeins í boði fyrir farþega sem eru einungis með handfarangur. Vefinnritunin er ókeypis en háð því að farþegar hafi valið sér sérstakt sæti í flugvélinni þegar flugið var bókað. Slíkt sætaval er þjónusta sem kostar 990 krónur fyrir hverja flugferð.