Íslenska ferðaskrifstofan Iceland Express mun þurfa að finna sér nýjar vélar til að fljúga á áfangastaði sína næsta sumar. Nýlega var tilkynnt að félagið hefði gert leigusamning við tékkneska félagið CSA Holidays, sem er í eigu Czech Airlines, á tveimur vélum félagsins.

Nýju vélarnar eru af gerðinni Airbus A320. Þær taka 180 manns í sæti og Iceland Express hefur í kjölfari samningsins við CSA auglýst mikið hinar nýju vélar.

Þetta gerðist í kjölfar þess að breska félagið Astraeus, sem áður sinnti flugi fyrir Iceland Express, stefndi í þrot. Þann 21. nóvember sl. flugu vélar Astraeus frá Íslandi með farþega Iceland Express en sama dag óskaði félagið eftir slitameðferð. Vélar CSA fluttu farþega Iceland Express heim um kvöldið. Bæði Astreus og Iceland Express voru í eigu Fengs, eignarhaldsfélags í eigu Pálma Haraldssonar.

Samkvæmt tilkynningu CSA, sem Viðskiptablaðið er með undir höndum, eru vélarnar þó eingöngu leigðar til 30. apríl á næsta ári. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur CSA þegar ráðstafað vélunum í önnur verkefni næsta sumar þannig að ljóst er að þær verða ekki í notkun hjá Iceland Express.

Þá herma heimildir Viðskiptablaðsins að annarri vélinni verði skilað til CSA nú í janúar. Þannig mun Iceland Express einungis nota eina vél út apríl á næsta ári.

Aðspurður um málið segir Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, að nú standi yfir samningaviðræður við CSA og önnur flugfélög um leigu á vélum fyrir næsta sumar. Heimir Már segir að þær viðræður séu á lokastigi og að fljótlega verði tilkynnt um það hvaða vélar verða notaðar næsta sumar. Það verði þó að öllum líkindum notast áfram við Airbus vélar.

Heimir Már segist vera bjartsýnn á að niðurstaða fáist í þær viðræður og segist engar áhyggjur hafa af sumrinu.

Heimir Már vildi ekki staðfesta hvort annarri vélinni frá CSA yrði skilað nú í janúar þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins bar það undir hann.

„Við munum aðlaga flugflotann samkvæmt starfsemi okkar, nú er að fara í hönd rólegasti tíminn í áætlunarflugi til og frá Íslandi,“ segir Heimir Már í samtali við Viðskiptablaðsins.

Airbus A320 vél í eigu Czech Airlines (CSA).
Airbus A320 vél í eigu Czech Airlines (CSA).

Airbus A320 vél í eigu Czech Airlines (CSA). Iceland Express mun nota sömu tegund frá CSA út apríl á næsta ári en mun síðan þurfa að finna sér nýjar vélar.