Flugvél frá Iceland Express mun lenda í Boston í fyrsta sinn síðdegis í dag.  Þar með er annar áfangastaður félagsins í Bandaríkjunum kominn á áætlun félagsins. Á síðasta ári hóf félagið áætlunarflug til New York.

Í tilkynningu frá Iceland Express kemur fram að flogið verður til Boston alls fjórum sinnum í viku.

Þá kemur fram að Iceland Express mun fjölga áfangastöðum í Norður-Ameríku í næstu viku, þegar félagið hefur áætlunarflug til Chicago.

Vélar Iceland Express fljúga á flugrekstrarskírteini breska flugfélagsins Astraeus en bæði félögin eru í meirihlutaeigu Pálma Haraldssonar.