Iceland Express hefur flug til Barcelona í vetur og hefst sala á hádegi þann 16. ágúst. Barcelona verður fimmtándi áfangastaðurinn sem Iceland Express flýgur til. Flogið verður tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum, á tímabilinu frá 9. nóvember til loka maí að undanskildu hléi frá miðjum desember fram til 1. febrúar að því er kemur fram í frétt félagsins.

Barcelona hefur verið einn af vinsælustu áfangastöðum Íslendinga síðustu ár og með beinu flugi Iceland Express er nú hafin samkeppni á þessari flugleið. Borgin hefur löngum þótt ein af áhugaverðustu borgum Evrópu, með einstaka byggingarlist, fjölbreytt söfn, spennandi næturlíf og að sjálfsögðu knattspyrnuliðið Barcelona.

Sérstakt kynningartilboð verður á fyrstu sætunum sem bókuð eru til Barcelona. Þeir fyrstu sem bóka ferð til og frá Barcelona á tímabilinu frá 9. nóvember og fram í byrjun desember munu fá flugmiðann á 900 krónur auk skatta og annarra greiðslna, eða alls 3.895 kr. hvora leið.

?Barcelona er skemmtileg viðbót við okkar áfangastaði og er ánægjulegt að geta boðið Íslendingum upp á samkeppni í flugi til þessarar einstöku borgar. Eins og íslenskir neytendur hafa kynnst er Iceland Express stöðugt að leita leiða til að auka framboð á áætlunarflugi á sanngjörnu verði og er Barcelona enn eitt dæmið um það,? segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express í frétt félagsins.

Flogið verður frá Keflavík kl. 16:25 föstudaga og mánudaga, en lagt af stað frá Barcelona til Keflavíkur kl. 23:10 að staðartíma föstudaga og mánudaga. Flugtíminn milli Keflavíkur og Barcelona er um 4 klukkutímar og 20 mínútur.