"Félagið var að tapa fjármunum og þess vegna vantaði það fjárfesta." Þetta segir Jóhannes Kristinsson, nýr meirihlutaeigandi Iceland Express í viðtali við Viðskiptablaðið í dag. Jóhannes bíður nú niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á félaginu. Jóhannes á ekki von á öðru en að hún verði jákvæð, enda hefur hann séð ársreikninginn sem hann segir traustan.

Jóhannes segir að taprekstur Iceland Express skýrist meðal annars af því að ytri aðstæður hafi breyst frá stofnun félagsins, til dæmis hafi orðið gríðarlegar hækkanir á eldsneytisverði sem félagið hafi tekið á sig. "Við slíkt verður ekki búið lengur og líklegt að félagið muni leggja sérstakt eldsneytisgjald á flugfargjöld eins og samkeppnisaðilinn hefur gert. Maður vonar bara að eldsneytisverðið fari niður í framtíðinni - þetta hefur nú gerst áður."

Jóhannes telur Iceland Express eiga fullt erindi á markaðinn og telur það geta vaxið og dafnað við hlið Flugleiða. "Ég sé þetta félag ekki í neinum slag við Flugleiðir, heldur sem lítið félag við hliðina á Flugleiðum í einfaldari rekstri og ódýrari." Iceland Express flýgur nú tvisvar á dag til London og Kaupmannahafnar og hefur flutt um 350 þúsund farþega frá því fyrsta áætlunarflug félagsins hófst fyrir um einu og hálfu ári síðan.

Ítarlegri umfjöllun um Iceland Express og viðtal við Jóhannes er að finna í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.