Iceland Express flaug sína fyrstu áætlunarferð til New York á þriðjudaginn í þessari viku. Í tilkynningu segir að þar með sé í „fyrsta skipti komin samkeppni á flugleiðinni milli Íslands og New York.

„Bókanir eru mjög góðar og umfram vonir  og hefur flugið gengið afar vel þessa þrjá fyrstu daga.   Í sumar verður flogið fjórum sinnum í viku,  á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum.  Flogið er út síðdegis og komið aftur heim snemma morguns," segir í tilkynningu frá félaginu.

Flogið á Newark flugvöllinn

„Flogið er til og frá Newark flugvellinum, sem er nýlegur flugvöllur og sá fimmti stærsti í Bandaríkjunum.  Þaðan eru 26 kílómetrar inn til Manhattan, en Newark er sá flugvöllur í Bandaríkjunum, sem býður uppá flest tengiflug innanlands.  Flugvöllurinn er afar vel skipulagður og því auðvelt fyrir ókunnuga að komast ferða sinna.

Mjög góðar samgöngur eru milli flugvallarins og Manhattan, tíðar ferðir fram og til baka  og tekur ferðin inn til Manhattan með lest um 20 mínútur.  Ferðin aðra leið með lestinni kostar 15 dollara," segir í frétt frá Iceland Express.