Iceland Express hyggst auka verulega framboð á flugsætum til Lundúna næsta haust. Frá og með 1. september næstkomandi mun félagið fljúga tvisvar á dag til Lundúna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iceland Express.

Fram kemur að brottför Lundúnaflugs félagins verður kl. 07:00 og kl.14:20 alla virka daga vikunnar. Áfram verður þó einungis eitt flug á dag um helgar.

Fyrri heimferð Iceland Express virka daga verður kl.11:30 og sú síðari kl.20:00. Því er um að ræða áhugaverðan valkost fyrir þá sem fljúga oft á þessari leið og sem vilja ná hálfum vinnudegi heima Íslandi eða vera komnir heim fyrr um kvöldið.

„Því er ekki að leyna að við sjáum ýmis tækifæri á þessum markaði,“ segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express í tilkynningunni.

„Aðstæður eru vissulega krefjandi, en við teljum að nú sé rétti tíminn til að efla enn frekar samkeppnina á lykil flutningsleiðum til og frá landinu. Hagræði og sveigjanleiki mun skipta enn meira máli á næstu mánuðum og við teljum að við getum aukið verulega við okkur markaðshlutdeild, bæði meðal einstaklinga og fyrirtækja, á þessari vinsælu leið.“