Iceland Express var metið á sex milljarða króna þegar það var fært frá Fons inn í Northern Travel Holding (NTH) hinn 26. desember 2006.

Þegar flugfélagið var síðan keypt aftur í nóvemberlok 2008 var það gert með 300 milljóna króna hlutafjáraukningu. Iceland Express var því metið 20 sinnum meira virði í árslok 2006 en tæpum tveimur árum síðar.

Samkvæmt ársreikningi Iceland Express fyrir árið 2006 var eigið fé félagsins neikvætt um 208 milljónir króna þegar sex milljarða króna salan fór fram. Um 118 milljóna króna tap hafði verið á rekstrinum á árinu og heildareignir flugfélagsins voru sagðar nema um 572 milljónum króna, um einum tíunda af söluverði þess.

Samkvæmt áætlun sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, og kallast Project ScanTravel, var Iceland Express „selt“ frá Fons til NTH á sex milljarða króna. Ekkert var greitt fyrir kaupin heldur veitti Fons NTH sex milljarða króna seljendalán vegna þeirra. Það lán var síðan bókfært sem eign Fons og félagið greiddi sér út 4,4 milljarða króna arð árið eftir vegna sterkrar eignastöðu, sem meðal annars grundvallaðist á seljendaláninu.

_____________________________

Nánar er fjallað um málefni Fons, Iceland Express og Project Scan Travel í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .