Iceland Express mun hefja flug til Luxemborgar í haust og er sala í ferðirnar nýhafin, segir í fréttatilkynningu.

Að sögn Matthíasar Imsland, forstjóra Iceland Express, er ástæða þess að félagið hefur flug til Luxemborgar mikil eftirspurn frá viðskiptavinum, auk þess sem staðsetningin hafi átt stóran þátt í ákvörðuninni.

"Luxemborg liggur vel við samgöngum á meginlandi Evrópu og þangað liggja leiðir til allra átta. Borgin er jafnframt orðin mikil fjármálamiðstöð þar sem fjölmörg íslensk fyrirtæki eru með umfangsmikla starfsemi sem krefst góðra samgangna við Ísland. Við byrjum á því að bjóða flug tvisvar í viku á þessu sex vikna tímabili og sjáum hvernig gengur. Ef viðbrögðin verða góð er vel hugsanlegt að við höldum áfram,? segir Matthías.

Luxemborg er fjórtándi áfangastaðurinn sem Iceland Express flýgur til.

Beinar flugsamgöngur milli Keflavíkur og Luxemborgar hafa legið niðri frá ársbyrjun 2000, segir í tilkynningunni.