Iceland Express og Ávaxtabíllinn, í samstarfi við Gæðabakstur, hafa gert með sér samkomulag um að Ávaxtabíllinn muni hér eftir sjá um matinn um borð í flugvélum Iceland Express. Í kjölfarið mun farþegum gefast kostur á að velja milli fleiri og hollari rétta en áður hafa verið í boði, segir í tilkynningu frá Iceland Express.

Farþegar Iceland Express munu frá og með 1. júní geta gætt sér á ferskum hollusturéttum í anda Ávaxtabílsins; pastaréttum, salatréttum og ávaxtasalati auk þess að geta valið pizzur eða langlokur sem sérbakaðar eru hjá Gæðabakstri af þessu tilefni.

„Samstarf Iceland Express og Ávaxtabílsins er í takt við þá stefnu félagsins að farþegar þess ferðist með ánægju og er vöruúrvalið byggt upp með það markmið að leiðarljósi. Í öllum réttum Ávaxtabílsins er ferskleikinn í fyrirrúmi, þeir eru án aukaefna og óæskilegra viðbóta, t.d. er hvorki kiwi né hnetur notað við matreiðsluna,“ segir í tilkynningunni.

„Við höfum að undanförnu orðið vör við meiri eftirspurn eftir ferskum og hollum mat meðal farþega okkar og erum að bregðast við því í dag. Ávaxtabíllinn framleiðir hágæða vöru sem við erum stolt af að bjóða í flugvélum Iceland Express. Við erum þess fullviss að þessi nýja þjónusta muni mælast vel fyrir,“ segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.

Eftir sem áður verður matur í flugvélum Iceland Express boðinn gegn hóflegu gjaldi. Þannig getur félagið boðið hagstæðara verð á fargjöldum en um leið veitt hágæða þjónustu þeim sem áhuga hafa á að nýta sér hana.