Íslenska lággjaldaflugfélagið, Iceland Express, hefur sagt öllum flugfreyjum sínum upp störfum en þær eru um 40 talsins. Þetta var tilkynnt á fundi í gær og taka uppsagnirnar gildi frá og með 1. október, en samkvæmt þriggja mánaða uppsagnarfresti vinna þær til áramóta. Iceland Express hefur hingað til leigt flugvélar sínar af breska flugfélaginu Astreus með flugmönnum, en hefur sjálft útvegað flugfreyjur. Astreus mun því væntanlega frá og með næstu áramótum leigja flugvélarnar með fullri áhöfn, flugáhöfn og flugfreyjum.

Í Viðskiptablaðinu í dag segir Ólafur Hauksson, talsmaður Iceland Express, að flugfreyjunum sé sagt upp vegna hagræðingar og samræmingar á vinnutilhögun flugmanna og flugfreyja. Flugmenn vélanna starfa undir breskri vinnulöggjöf og svokölluðum JAR OPS reglum, en flugfreyjurnar starfa undir kjarasamningum Flugfreyjufélags Íslands. Ólafur segir þetta getað skapað óhagræði en vinnutími flugmannanna er mun rýmri en flugfreyjanna. "Ef það verða einhverjar tafir getum við lent í því að geta ekki farið í loftið vegna þess að flugfreyjur eru runnar út á vinnutíma en flugmennirnir ekki. Þetta er eins og að hásetar mættu ekki vinna um borð en skipstjórinn mætti það."