Gengið hefur verið frá samkomulagi milli Iceland Express og Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík, um að Stúdentafélagið fái hér eftir hluta af þeim tekjum, sem verða til vegna sölu á farmiðum til námsmanna við skólann.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iceland Express.

„Forsvarsmenn Iceland Express segja námsmenn frá upphafi hafa verið mikilvægan markhóp fyrirtækisins,“ segir í tilkynningunni.

„Námsmenn leggi meira upp úr sveigjanleika og því að ferðast á hagkvæman hátt, en farþegar af eldri kynslóðinni.“

Þá kemur fram að  Iceland Express vilji vera aðal flugfélag unga fólksins. Einnig að samkomulagið muni styrkja fjárhagsgrundvöll Stúdentafélagsins, sem sinnir bæði félagslífi og margskonar hagsmunagæslu fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík.

Samkvæmt samkomulaginu mun Stúdentafélagið aðstoða við markaðssetningu á þjónustu flugfélagsins til félagsmanna sinna, meðal annars með sölu farmiða í gegnum vefsíðuna www.studentafelag.is .

Vonast flugfélagið eftir því að styrktarsamningurinn leiði til þess, að það fái til sín eitthvað af þeim fjölmörgu utanlandsferðum sem farnar eru í tengslum við skólastarfið, svo sem náms- og útskriftarferðir ýmiskonar.