Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að Iceland Express hafi brotið gegn laga og reglna við framsetningu á verðupplýsingum á bókunarvef fyrirtækisins.

Icelandair hafði í febrúar sent bréf til Neytendastofu þar sem þess er óskað að Neytendastofa tæki til skoðunar hvort framsetning á verðupplýsingum í bókunarferli Iceland Express samræmist lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og reglum um verðmerkingar.

Í erindi Icelandair segir að verðupplýsingar á vefsíðu Iceland Express sem birtist í viðeigandi dálkum, þegar valinn hafi verið brottfarardagur og áfangastaður, sé ekki heildarverð heldur verð fyrir fullorðinn farþega án skatta og annarra gjalda. Efst á síðunni með smáu letri sé tekið fram að ekki sé um heildarverð að ræða en vinstra megin á síðunni sé að finna kassa þar sem heildarverðið komi fram.

Samkvæmt úrskurði Neytendastofu er Iceland Express gert að breyta framsetningunni þannig að heildarverð hvers flugfars með sköttum og öðrum greiðslum komi fram í beinu framhaldi af því verði sem Iceland Express selur flugfarið á án skatta og annarra greiðslna.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu en þar má jafnframt sjá úrskurðinn í heild.