Iceland Express stundaði talningu á farþegafjölda helsta samkeppnisaðilans, Wow air og hefur undir höndum upplýsingar um farþegafjölda Wow air frá því að félagið hóf flug í byrjun júní sl.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Iceland Express sem nú stendur yfir en Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að Pálmi Haraldsson, eigandi Iceland Express, léti telja inn og út úr vélum Wow air.

Sem kunnugt er hefur Wow air lagt fram kæru á hendur Pálma Haraldssyni, Iceland Express, Birni Vilberg Jónssonar og annarra ótilgreindra starfsmanna Iceland Express. Kæran varðar meintar njósnir Pálma og Iceland Express gegn WOW Air.

Á blaðamannafundinum kom fram að Iceland Express mun fara fram á það að lokað verði fyrir aðgang starfsmanna flugþjónustuaðilans Keflavik Flight Services (KFS) að tetra rásum sem eru í eigu Iceland Express. KFS þjónustar Wow air. Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, staðfesti að félagið hefði stundað talningu á farþegum Wow air en að hefði verið gert með öðrum hætti en að nota umræddar tetra rásis.

Fjallað er um málið í DV í dag en í gögnum um málið sem DV hefur undir höndum kemur fram að starfsmenn WOW voru upplýstir um það af starfsmanni ISAVIA þann 18. júní að starfsmenn Iceland Express stunduðu hleranir á tetra-rás WOW. Starfsmaður ISAVIA taldi að hlerunin hafi staðið yfir í töluverðan tíma og hafði staðið einn starfsmann Iceland Express að verki. Björn Vilberg viðurkenndi þá að tilgangur hlerunarinnar væri að afla upplýsinga um farþegatölur og annað sem snýr að starfsemi WOW. Upplýsingarnar væru sendar beint til eiganda og stjórnarformanns Express, Pálma Haraldssonar.