Danska fyrirtækið One XP hefur frá og með áramótum umsjón með allri starfsemi Iceland Express sem snýr að fraktflutningum. Það felur meðal annars í sér samskipti við flutningamiðlara og þjónustuaðila á flugvöllum, gæðastjórnun og eftirlit, eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá Iceland Express.

Jafnframt mun danska fyrirtækið Proactive verða sölu- og þjónustuaðili fyrir flugfrakt viðskiptavina Iceland Express með skrifstofu og fastan starfsmann í Keflavík. Breytingarnar mun hafa í för með sér hagræðingu og bætta þjónustu í fraktflutningum flugfélagsins, eftir því sem segir í tilkynningunni. Langmestur hluti fraktflutninga félagsins fer í gegnum flutningsmiðlara og því munu breytingarnar hafa lítil sem engin áhrif á almenna flugfarþega.