Aðalfundur Iceland Express flugfélagsins var haldin fyrir skömmu en afkoma félagsins á síðasta ári var neikvæð. Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, sagðist gera ráð fyrir jákvæðri afkomu árið 2009 en vildi að öðru leyti ekki upplýsa nánar um afkomu félagsins.

Velta félagsins jókst hins vegar á síðasta ári og horfur á að hún haldist alla vega í horfinu á þessu ári.

Matthías sagði að þeir teldu félagið vera að auka markaðshlutdeild sína en það fer nokkuð eftir því á hvaða markað litið er á.

„Við teljum að við séum með um það bil 25% markaðshlutdeild á Evrópumarkaði og 15 til 20% hljómar sennilegt þegar litið er á heildarmarkaðinn,” sagði Matthías. Hann sagðist eiga von á því að það myndi aukast með tilkomu Ameríkuflugs félagsins.

- Hafið þið sett ykkur einhver markmið um hvað það mun aukast með þessum breytingum?

„Við erum ekkert að spá í hvað hinir eru að gera. Það sem skiptir máli hjá okkur er að við erum að bæta þarna inn í og bæta tugum sæta við og ætlum að koma með stóran hluta þess til Íslands. Markaðshlutdeildin ein og sér skiptir ekki máli, við viljum bara stækka kökuna.”