Jón Ásgeir Jóhannesson segir í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í kvöld, í kjölfar fréttar Sjónvarpsins um viðskipti með hluti í Iceland Foods, að félagið sé verðmætasta eign gömlu bankanna. Iceland Foods muni greiða hátt í þriðjung af Icesave skuldinni.

Ljóst er að bæði gamli Landsbankinn og Glitnir tóku yfir eignarhluti í Iceland Food á árinu 2008 og lækkuðu á móti skuldir félaga sem voru undir stjórn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Þá vissu innvígðir bankamenn að Baugur Group stóð tæpt og fyrirsjáanlegt að félagið gat ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Landsbankinn átti 119 þúsund hluti í Iceland

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis er fjallað um eignarhlut Landsbankans í Iceland Food. Það segir að það hafi vakið athygli að verð óskráðra eigna í safni eigin viðskipta Landsbankans var fært upp á við þegar markaðsverð eigna á Vesturlöndum voru almennt á niðurleið í lok árs 2007 og allt þar til bankinn féll.

„Munaði þá mest um uppfærslu á verði á óskráðu félagi á Bretlandseyjum, Iceland Food Group Ltd. Landsbankinn færði félagið inn á safn eigin viðskipta bankans í september 2007 að nafnvirði alls 109 þúsund hlutir. Verð á félaginu samkvæmt uppgjöri bankans í desember var skráð á bókum á genginu 455,5 en í mars 2008 var það komið í 610,11, skv. uppgjöri. Í júní var félagið skráð á bókum Landsbankans á genginu 735," segir í skýrslu RNA.

Iceland hækkar og Tesco lækkar

Þá kemur fram að þegar horft sé til þess að eignaverð fór almennt lækkandi í heiminum á sama tíma veki þessi hækkun í reikningum Landsbankans athygli og þar með þau áhrif sem þetta hafði til að auka hagnað bankans á fyrsta árshelmingi 2008.

„Þannig jókst virði Iceland Food Group um ríflega 60% á bókum Landsbankans á meðan sambærileg félög í Bretlandi lækkuðu. Til dæmis lækkaði hlutabréfaverð matvörukeðjunnar Tesco’s um 16%, og Marks & Spencer’s lækkaði um 50% frá desember 2007 til júní 2008. Uppfærsla verðs á Iceland Food Group gaf Landsbankanum um 8 milljarða króna af þeim 29 milljarða króna hagnaði sem bankinn gaf upp að hefði orðið á fyrri helmingi ársins 2008," segir í skýrslu RNA.