Breska dagblaðið Sunday Times hefur útnefnt bresku matvörukeðjuna Iceland Foods það fyrirtæki sem best er að vinna hjá. Malcolm Walker, stofnandi og forstjóri Iceland Foods, er jafnframt besti forstjóri í bresku atvinnulífi, að mati blaðsins.

Í breskum fjölmiðlum í dag kemur fram að Iceland Foods hafi tekið heljarstökk á lista blaðsins síðustu ár tvö árin. Árið 2010 var fyrirtækið í 13. sæti á lista blaðsins og í 6. sæti í fyrra. Fyrirtækið komst fyrst á blað fyrir þremur árum.

Walker segir í samtali við breska netmiðilinn The Grocer frábært að fá staðfestingu sem þessa á því að Iceland Foods sé besta fyrirtæki Bretlands.

Slitastjórnir Landsbankans og Glitnis eiga 77% hlut í Iceland Foods en greindu frá því á dögunum að Walker og lykilstjórnendur verslunarinnar hafi tryggt sér eignarhlutinn í söluferli. Markaðsverðmæti matvörukeðjunnar sem Walker stofnaði árið 1970 nemur samkvæmt tilboðinu 1,55 milljörðum punda, jafnvirði um 300 milljarða íslenskra króna. Hlutur slitastjórnanna nemur því rétt rúmum 230 milljörðum króna. Þar af á slitastjórn Landsbankans 67% hlut sem jafngildir 200 milljörðum króna. Milljarðarnir fara upp í Icesave-skuld gamla Landsbankans. Það sem út af stendur af heimtum Landsbankans fer upp í almennar kröfur.