

Guardian fjallar um árangur íslenska landsliðsins og áhrif þess á sölu á skyri, bókum og ferðum til landsins. Greinin birtist á vef breska blaðsins Guardian fyrir landsleikinn í gærkvöldi þar sem Ísland vann tyrkneska landsliðið 2-0.
Segja þeir að mjólkurbændur, flugfélög, fjárfestingarbankar og jafnvel breska verslunarkeðjan Iceland hafi grætt á árangri íslenska landsliðsins.
Verslunarkeðjan Iceland sem um tíma var í eigu íslenskra aðila, hélt úti auglýsingaherferð sem byggði á því að láta stuðningsmenn enska landsliðsins líta á íslenska landsliðið sem sitt annað stuðningslið. Reyndar í Skotlandi beindist herferðin að því að láta þá styðja við þá framar því enska.
„Þetta var bilað,“ sagði Andy Thompson, hjá Iceland Foods, sem er með um 2% markaðshlutdeild í Bretlandi. „Við náðum til um 72 milljón manna á meðan á mótinu stóð, og myndböndunum var deilt út nærri tveim milljón sinnum. Þetta voru náttúruleg samlegðaráhrif, bæði erum við lítilmagnar og bæði deilum við sama nafni.“
Í vikunni sem landsleikur Íslands var við England á meðan Evrópumeistaramótinu stóð var ein sú besta í netsölu fyrirtækisins.
Jafnframt fjallar greinin um aukna sölu á skyri og ferðum til Íslands, ásamt því að Gamma sé að opna útibú á ný í Bretlandi eftir að Ísland lokaðist af frá alþjóðamörkuðum í kjölfar hrunsins. Einnig tekur hún viðtal við metsölubókarhöfundinn Ragnar Jónsson en bókin Snjór sem gefin er út sem hluti af seríunni Dark Iceland kom út í Frakklandi í sumar.
Viðtal birtist við hann í frönskum fjölmiðlum þar sem hann klæddist landsliðstreytju um bókina og salan rauk upp. „Þetta varð ein söluhæsta bókin í Frakklandi yfir sumarið,“ sagði Ragnar. „Það gerðist strax. Mótið var fullkomin tímasetning.“
Einnig er rætt við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar og viðskiptaráðherra, meðal annars um styrkingu krónunnar og áhrif þess á breska ferðamenn á sama tíma og pundið hefur veikst. Nefna þeir sem dæmi að bjór hérlendis hefur farið á skömmum tíma frá því að kosta 7 pund í 9 pund.
„Heppilega þá er þetta ykkar vandamál, ekki okkar,“ segir Raghneiður Elín í gríni og segir áhugann ekki bara bundinn við Evrópu.
„Við höfum séð hann frá Bandaríkjunum, frá Asíu. Ég fór í viðtal við kínverska sjónvarpsstöð vegna áhuga þeirra á landinu vegna fótboltans. Fótboltinn hafði mikið og jákvæð áhrif. Þetta var auglýsingar og ímyndarherferð sem ekki er hægt að kaupa. Við höfum verið í brennidepli alþjóðafrétta áður, en þá fylgdi því að við vorum alræmd fyrir efnhagskreppuna 2008 og þegar eldfjallið [Eyjafjallajökull] gaus.“