Að sögn Maríu Bragadóttur, framkvæmdastjóra Iceland Health, er verið að ljúka fyrsta áfanga fjármögnunar vegna verkefnis þeirra.

Ætlunin var að safna 2 til 4 milljónum evra í hlutafé og sagði hún að neðri mörkum þess væri náð en verið væri að ganga frá undirskriftum samninga þar um og yrði send út tilkynning vegna þess innan nokkurra daga.

Til stendur að opna sérhæft hágæðasjúkrahús í húsakynnum Kadeco á Ásbrú í Reykjanesbæ. Að sögn Maríu er unnið á fullu að hönnun 2600 fermetra sjúkrahúss.

Iceland Health verður í raun móðurfélag tveggja félaga, annars vegar Keflavík Health, sem er sjúkrahúshlutinn og endurhæfingarstarfsemin, og hins vegar Pure Health, sem er ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í heilsutengdri ferðaþjónustu.

Núverandi hluthafar Icelandic Health eru Róbert Wessman, Ottó Nordhus, Elín Björnsdóttir, Ólafur Már Björnsson og Pétur Jónsson.