Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) hefur í samstarfi við Iceland Healthcare ákveðið að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á sjúkrahúsinu að Ásbrú, í Reykjanesbæ. Á sjúkrahúsinu verða þrjár skurðstofur og 35 legurými, þar sem boðið  verður upp á sérhæfðar meðferðir fyrir útlendinga. Allt að 300 störf munu skapast í tengslum við starfsemina segir í tilkynningu.

Þar segir að gert sé ráð fyrir að þjónustuþegar verði  um 1.000 talsins fyrsta starfsárið en tvöfaldist síðan á næstu tveimur árum, með árlegum tekjum sem áætlaðar eru um 3,5 milljarðar króna.

Góð aðstaða og þekking í Reykjanesbæ

Fyrirhugað er að nýta gamla hersjúkrahúsið að Ásbrú en ráðist verður í umfangsmiklar endurbætur á því undir stjórn Kadeco. Framkvæmdir við sjúkrahúsið munu hefjast á öðrum ársfjórðungi 2010. Jafnframt verður notast við íbúðarhúsnæði á svæðinu fyrir sjúklinga og aðstandendur. Val á staðsetningu starfseminnar réðst af miklu leiti af þeirri miklu þekkingu og reynslu af þjónustu við erlenda ferðamenn sem er á svæðinu og mun nýtast vel við ýmsa tengda þjónustu segir í tilkynningu.

Verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag

Gera má ráð fyrir að erlendir sjúklingar sem sækja sjúkraþjónustu utan heimalands ferðist með aðstandendum og dvelji að jafnaði í tvær vikur eftir meðferð í endurhæfingu. Umtalsverðar gjaldeyrisstekjur geta því skapast þessu tengt og má ætla að árlegar rekstrartekjur af starfseminni geti numið allt að 3,5 milljörðum króna á ári. Þá eru ótaldar tekjur af ferðatengdri starfsemi og þjónustu. Allt að 300 störf munu skapast við endurbyggingu, starfsemi sjúkrahússins og afleidd störf á svæðinu vegna ýmissrar þjónustu segir í tilkynningu.