Stytta ehf., sem á 29,7% hlut í bresku matvörukeðjunni Iceland Foods, metur hlutinn á 422,6 milljónir punda, eða 78,3 milljarða króna samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2009. Samkvæmt því er virði Iceland Foods í heild 263,5 milljarðar króna. Ómögulegt er
þó að segja til um hvort bókfært virði hlutarins endurspeglar raunvirði félagsins, enda er það ekki skráð á markaði.

Í ársreikningum kemur fram að 344,5 milljónir punda, 63,8 milljarðar króna, hefðu átt að greiðast til Landsbankans 10. september 2010. Sú greiðsla var ekki innt af hendi og í kjölfarið hóf Landsbankinn að leysa bréf Styttu í Iceland til sín. Skilanefnd Landsbankans heldur nú á um 67% hlut í Iceland.

Þrátt fyrir að Stytta geti augljóslega ekki greitt af skuldum sínum hefur ekki verið tekin ákvörðun um að setja félagið í þrot. Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Landsbankans, langstærsta kröfuhafa Styttu, verður félagið líklega gert upp í tengslum við sölu á Iceland Foods.

Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndarinnar, segir engar viðræður um sölu á Iceland vera í gangi sem stendur.
„Það er verið að ráða erlenda ráðgjafa til að annast söluferlið en ekki búið að ganga endanlega frá því hverjir það verða. Í kjölfarið verður farið í formlegt söluferli.“ Hann segir að vonir standi til þess að hægt verði að selja Iceland Foods á þessu ári. Ýmsir hafi lýst yfir áhuga að kaupa en ekki hafi verið farið í samningsviðræður við þá. Þeim verði hins vegar gefinn kostur á að
taka þátt í söluferlinu þegar að því kemur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.