Nýtt blað mun líta dagsins ljós á morgun. Blaðið heitir Iceland Mag en ritstjóri þess og útgefandi er Jón Kaldal, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins. „Við dreifum á morgun eins langt og hægt er að komast um landið,“ segir Jón Kaldal. Hann bendir þó á að nú sé ófært á Norðurlandi þannig að norðanmenn gætu þurft að bíða í einhverja daga.

„Svo erum við á fleygiferð núna að ganga frá vefsíðu sem vonandi mun opna í betaútgáfu á morgun. Hún er ekki með allri virkni sem hún ætti að hafa á endanum en við munum opna efnishluta og byrja vonandi að sýna í hvaða átt við stefnum þar,“ segir Jón. Hann segir að samið hafi verið við 365 miðla um birtingu ljósmynda og hreyfimynda sem ætti þá að geta nýst bæði fyrir blaðið og vefsíðuna.

Iceland Mag.
Iceland Mag.

„Þetta er blað á ensku fyrir ferðamenn, blaðið er fyrir þá sem eru komnir til landsins,“ segir Jón en bætir því við að vonandi muni einhverjir Íslendingar grípa það með sér líka. Blaðinu verður dreift með póstdreifingu á 500 staði á morgun og að auki muni menn á vegum blaðsins dreifa því. „Við verðum á hótelum, kaffihúsum, söfnum, sundlaugum, bensínstöðum og ennþá viðar,“ segir Jón.

Vefurinn verður líka á ensku og Jón segir að hann sé ætlaður þeim sem eru hérna, þá sem eru á leiðinni hingað og þá sem hafa áhuga á Íslandi. „Það verður mjög mikil áhersla á vefsíðuna hjá okkur. Fyrst og fremst erum við vefsíða og gefum út blaðið samhliða því. Við leggjum engu að síður mikinn metnað í blaðið,“ segir Jón. Hann segir að það standi til að gefa blaðið út einu sinni í mánuði til að byrja með en hugsanlega tvisvar í mánuði í sumar.