Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,6% í 2,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf Símans hækkuðu mest eða um 3,9% eftir að tilkynnt var í gærkvöldi um framlengingu á fresti Samkeppniseftirlitsins til ljúka rannsókn á sölu félagsins á Mílu til Ardian.

Sjá einnig: Gengi Símans hækkar um 4%

Þá hækkaði hlutabréfaverð Marels um 1,8% í 200 milljóna veltu og stóð í 574 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Gengi félagsins endaði gærdaginn í 564 krónum og náði þar með sínu lægsta stigi frá því í apríl 2020.

Hlutabréfaverð Iceland Seafood International lækkaði mest í dag eða um 2,1%, þó aðeins í 12 milljóna veltu. Gengi félagsins stendur nú í 9,2 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra frá því í nóvember 2020. Hlutabréf Iceland Seafood hafa lækkað um 45% í ár.