Fyrsti viðskiptadagur vikunnar var fremur rólegur á aðalmarkaði íslensku kauphallarinnar, en heildarvelta með hlutabréf nam 2,3 milljörðum króna. Úrvalsvísitalan OMXI10 hækkaði um 1,12% í viðskiptum dagsins og stendur hún fyrir vikið í 2.674,18 stigum.

Gengi hlutabréfa í Iceland Seafood hækkaði mest, um 1,82% í 83,5 milljóna króna viðskiptum. Þá hækkaði gengi bréfa Regins um 1,8% í 53,3 milljóna viðskiptum.

Hlutabréfaverð TM lækkaði mest í dag, um 0,63% í aðeins 7,2 milljóna króna viðskiptum. Þá lækkuðu bréf í Brim um 0,37% og bréf Sýnar lækkuðu um 0,27% en velta með bréf beggja fyrirtækja var afar takmörkuð.

Mest voru viðskipti með bréf Símans, en velta með þau nam 381 milljón króna. Þá nam velta með bréf Marel 343 milljónum króna og velta með bréf Arion banka 265,5 milljónum króna.

Umtalsvert meiri velta var á skuldabréfamarkaði í dag, hvar heildarvelta nam 10,1 milljarði króna. Mest var velta með RIKB 31 0124, óverðtryggð ríkisskuldabréf á lengri endanum, en hún nam 3 milljörðum.