Grænt var yfir viðskiptum dagsins á Aðalmarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi en heildarvelta viðskipta nam 2,7 milljörðum króna. Gengi 17 af þeim 19 félögum sem skráð eru á markað hækkaði í viðskiptum dagsins og fyrir vikið hækkaði gengi OMXI10 úrvalsvísitölunnar um 1,25% og stendur nú í 2.483,65 stigum.

Gengi hlutabréfa Iceland Seafood hækkaði langmest í viðskiptum dagsins, eða um rétt ríflega 11% í 772 milljóna króna veltu. Var mesta velta dagsins jafnframt með bréf félagsins. Félagið gaf út afkomuviðvörun síðasta föstudag þar sem greint var frá að félagið vænti þess að hagnaður ársins fyrir skatta verði á bilinu 3,8 til 5 milljónir evra. Þó var áréttað að óvissa sé enn mikil og að margir áhrifaþættir geti hreyft við spánni.

Gengi bréfa Icelandair hækkaði næstmest í viðskiptum dagsins, eða um 4% og gekk því gengislækkun síðasta föstudags að mestu til baka. Velta með bréf Icelandair nam 295 milljónum króna í viðskiptum dagsins.

Eimskip og Síminn þurftu að bíta í það súra epli að vera einu félögin sem máttu þola lækkun á gengi sínu í viðskiptum dagsins. Gengi Eimskips lækkaði um 2,72% í 128 milljóna króna veltu. Síminn þarf þó vart að örvænta, enda lækkaði gengi bréfa félagsins aðeins um 0,32% í 74 milljóna króna viðskiptum.