Hlutabréf Iceland Seafood hækkuðu talsvert í dag eða um 8,62%. Á mánudagskvöldið var tilkynnt um kaup félagsins á Icelandic Iberica . Greitt verður fyrir Icelandic Iberica með hlutum í sameinuðu félagi og 1.047 milljónir nýrra hluta gefnir út í Iceland Seafood.

Miðað við markaðsgengi Iceland Seafood þegar kaupin voru tilkynnt fengu fyrrverandi eigendur Icelandic Iberica tæplega 7,3 milljarða fyrir félagið. Á þeim eina viðskiptadegi sem liðinn er síðan þá virðast fyrrverandi eigendur Icelandic Iberica hafa bætt við sig rúmum 600 milljónum króna ef miðað er við markaðsvirði Iceland Seafood.

Icelandic Iberica var í eigu Solo Seafood sem var aftur í eigu Sjávarsýnar, félags Bjarna Ármannssonar fyrrverandi forstjóra Glitnis, FISK Seafood, Jakobs Valgeirs og Nesfisks.

Iberica var áður dótturfélag Icelandic Group á Spáni og leggur áherslu á markaði í Suður-Evrópu. Að því er kemur fram í tilkynningu um kaupin er það með 120 milljónir evra í tekjur á ári og hagnað upp á 4 milljónir evra fyrir skatta.

Samtals er áætlað að Iceland Seafood muni eftir kaupin velta meira en 400 milljónum evra og skila 10 milljónum evra í hagnað fyrir skatta. Þá mun samstæðan ráða yfir 10% af íslenskum kvóta og reka 8 vinnslutstöðvar á Íslandi.