Oceanpath, dótturfélag Iceland Seafood International á Írlandi hefur lokið við kaup á Carr & Sons Seafood Limited frá félaginu Mondi Group AB. Samhliða hefur ISI keypt 33% hlut Ecock Holding í Oceanpath og á þar með félagið að fullu, en það keypti 67% í því árið 2018.

ISI kaupir þriðjungshlutann á 9 milljónir evra, eða sem samsvarar tæplega 1,5 milljörðum íslenskra króna, þar sem 40% er greitt út með peningum en 60% með auknu hlutafé í ISI. Þar með eignast Ecoch fjölskyldan 2,19% í ISI.

Jafnframt kaupir ISI af systurfélaginu Mondi Properties Ltd. verksmiðju Carr & Sons í Killala á vesturströnd Írlands, en Carr & Sons Seafood sérhæfir sig í framleiðslu á vörum úr reyktum laxi.

Ársvelta Carr & Sons árið 2019 nam 11,5 milljónum evra, eða sem nemur tæplega 1,9 milljörðum íslenskra króna, en hagnaður félagsins á síðasta ári nam 900 milljónum evra, eða sem samsvarar 145,4 milljónum króna.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood segist gríðarlega ánægður með að vera að styrkja stöðu félagsins á Írska markaðnum.

„Oceanpath er vel rekið fyrirtæki þar sem viðskiptavinurinn og vöruþróun eru alltaf sett í fyrsta sætið. Við erum stolt af sambandi og samvinnu okkar við Ecock fjölskylduna og full sjálftrausts um að framkvæmdastjórteymið okkar á Írlandi muni nýta þetta tækifæri til fullnustu eins og önnur tækifæri sem þau hafa tekist á við,“ segir Bjarni.

„Carr & Sons er vel staðsett fyrirtæki á markaðnum fyrir sjávarafurðir og kaupin styrkja okkur á írska markaðnum og opnar ný tækifæri til þess að þróast og þjóna viðskiptavinum okkar enn betur. En ánægður viðskiptavinur er besti langtíma mælikvarðinn á það sem við erum að gera.

Kaupin eru partur af þeirri vegferð sem við hjá Iceland Seafood erum á. Að kaupa og byggja upp virðisaukandi fyrirtæki sem eru djúpt inni á markaðnum og nálægt viðskiptavininum og sem gefa okkur tækifæri til að nýta okkar þekkingu og styrk í innkaupum, framleiðslu og markaðsmálum. Við teljum að Carr & Sons passi mjög vel við þá stefnu.”

Stór hluti sölu fyrirtækisins er undir merkinu Nolan Quality Seafoods, sem er sagt í tilkynningu vera leiðandi merki fyrir sölu reykts lax á Írlandi. Félagið selur einnig til meginlands Evrópu.

Með kaupum Iceland Seafood á Carr & Sons vonast fyrirtækið eftir því að stækka virðisaukandi starfsemi á markaði sem það er nú þegar með sterka markaðsstöðu. Með kaupunum er einnig ætlunin að ná góðu jafnvægi milli smásölu og sölu til veitingastaða og birgja í matvælageiranum.

Fyrir átti Oceanpath tvær verksmiðjur á Írlandi, sem vinna ferskar og frosnar sjávarafurðir auk vörumerkisins Dunn´s of Dublin sem selja reyktan lax, en vörumerkinu var komið á fót árið 1822.