Helmingur félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkaði um meira ein eitt prósent í 6,6 milljarða viðskiptum í dag. Iceland Seafood (ISI) hækkaði mest allra félaga eða um 5,3% í 279 milljóna veltu. Gengi ISI hafði lækkað úr 17,5 krónum í 15,2 krónur í október en er aftur komið upp í 16 krónur á hlut.

Fasteignafélögin þrjú hækkuðu öll um meira en tvö prósent í dag. Þar bar Reginn af en félagið hækkaði um 4,1% og náði sínu hæsta gengi frá skráningu í 30,4 krónum á hlut. Reitir hækkuðu um 2,5% en félagið sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun í dag . Þar kom fram að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar á þriðja ársfjórðungi hafi aukist um nærri 30% á milli ára. Eik hækkaði einnig um 2,4%.

Fjarskiptafélagið Sýn hækkaði um 3,3% og hefur nú hækkað um fjórðung á einum mánuði. Hlutabréfaverð Símans hækkaði einnig um 2,5% í 1,3 milljarða veltu í dag og stendur nú í 12,3 krónum á hlut. Síminn birti uppgjör eftir lokun markaða í gær þar sem fram kom að hagnaður félagsins hafi numið 1.057 milljónum á þriðja ársfjórðungi og rekstrarafkoma fjórðungsins var sú besta í sögu félagsins. Þá kom einnig fram að gerður hafi verið tuttugu ára heildsölusamningur við Mílu samhliða sölu á dótturfélaginu til Ardian.

Gengi Arion banka náði nýjum hæðum í 195,5 krónum á hlut í dag og hefur nú hækkað um 148% á einu ári. Alls hefur gengið hækkað um 283% frá mars á síðasta ári. Arion birti uppgjör stuttu eftir lokun Kauphallarinnar í dag þar sem m.a. kom fram að hagnaður bankans hafi numið 8,2 milljörðum á þriðja fjórðungi. Kvika náði einnig sínu hæsta dagslokagengi í 27,6 krónum eftir 0,7% hækkun en Íslandsbanki lækkaði um 0,4%.