Aðlöguð afkoma Iceland Seafood International (ISI) eftir skatta var neikvæð um 712 þúsund evrur, eða sem nemur tæplega 99 milljónum króna, á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 2,9 milljóna evra á sama tímabili í fyrra.  

Sala Iceland Seafood jókst um 11% á milli ára og nam um 16 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins en framlegð félagsins lækkaði hins vegar lítillega á milli ára. Rekstrarkostnaður jókst um 22,6% og var 14,1 milljón evra eða um 2 milljarðar króna. 

Félagið segir að verulegar og hraðar verðhækkanir á öllum sviðum hafi litað fjórðunginn. Það taki tíma að velta hækkandi aðfangaverði út í verðlag, sérstaklega þegar kemur að viðskiptavinum í smásölu. Iceland Seafood segir að fordómalausar verðhækkanir á markaðnum séu farnar að hafa áhrif á eftirspurn eftir fiskafurðum og merki séu um að verð séu að ná jafnvægi á ákveðnum sviðum. Félagið gerir þó áfram ráð fyrir verðsveiflum og röskunum á aðfangakeðjum á komandi mánuðum. 

Bjarni Ármannsson, forstjóri ISI, segir að fjórðungurinn hafi reynst félaginu mjög krefjandi. „Aftur og aftur höfum við verið að hækka söluverð á vörunum okkar en fengið hækkun á aðfangaverði strax í kjölfarið. Hrávöruverð hefur náð fordómalausum hæðum,“ segir Bjarni í afkomutilkynningu og bætir við að aukin áhersla félagsins á smásölu geri það að verkum að verðhækkanir hafi meiri áhrif á reksturinn en ella. 

„Við munum klárlega ná jafnvægi á ný og sjáum því ekki því ekki þörf á að breyta heildarnálgun okkar,“ segir Bjarni en bætir þó við að félagið þurfi að fjárfesta hraðar og meira í sjálfvirknivæðingu.

Iceland Seafood lækkaði afkomuspá sína fyrir árið niður í 11-16 milljónir evra en áður hafði félagið gefið út spá um 14-19 milljónir evra. Bjarni segir að verri horfur endurspegli ekki langtímasýn stjórnenda á félagið.