Iceland Seafood hefur undirritað viljayfirlýsingu við Bondi Group AB um að kaupa allt hlutafé írska fiskvinnslufyrirtækisins Carrs & Sons Seafood Limited Ltd. Kaupverðið yrði 6,5 milljónir evra, eða rúmlega einn milljarður króna. Samningsaðilarnir vonast til að ljúka viðskiptunum fyrir 30. nóvember næstkomandi.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segist Iceland Seafood hafa náð að festa sig í sessi á írska sjávarmarkaðnum með kaupum á Oceanpath í mars 2018. Fyrirhuguð yfirtaka á Carrs & Sons er sögð passa vel við þann rekstur og myndi styrkja stöðu fyrirtækisins til muna.

Carrs & Sons rekur verksmiðju í bænum Killala í norðvesturhluta Írlands. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á reyktum lax. Sala félagsins nam 11,5 milljónum evra, eða um 1,9 milljarða króna, á síðasta ári. Hagnaður þess fyrir skatta var rúmlega 900 þúsund evra eða um 148 milljónir króna.

Hlutabréf Iceland Seafood hafa hækkað um 2,5% í fyrstu viðskiptum dagsins. Markaðsvirði félagsins er um 21,6 milljarðar króna í dag.