Breska matvöruverslunarkeðjan Iceland, sem er að miklum hluta í eigu íslenskra fjárfesta, hefur samþykkt að selja bresku stórvöruverslunarkeðjunni Marks & Spencer 28 búðir.

Kaupverðið er 38 milljónir punda, sem samsvarar rúlmlega fjórum milljörðum króna, segir í tilkynningu til kauphallarinnar í London.

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestingasviðs Baugs í Bretlandi, sagði í samtali við Viðskiptablaðið ekki búast við að selja fleiri búðir. Baugur, ásamt eignarhaldsfélaginu Fons, er einn af stærstu eignendum Iceland.

"Þegar við keyptum Iceland þá höfðu ýmsir aðilar samband við okkur til að kaupa af okkur búðir. Við vorum við sáttir við verðið (sem M&S borgar fyrir búðirnar) en við erum ekki að fara að selja fleiri búðir," sagði Gunnar.

Iceland greindi frá því í dag að sölutekjur, miðað við sama fjölda verslana í fyrra, jukust um rúmlega 16% í desember. Sölutekjur á fjórða ársfjórðungi í fyrra jukust um tæp 15%.

?Við höfum bætt reksturinn verulega síðan The Big Food Group-félagið var brotið upp og afskráð, sagði Malcolm Walker, forstjóri Iceland, í samtali við DowJones fréttastofuna í dag.

?Viðsnúningurinn á rekstrinum, sem fyrrverandi stjórnendum tókst ekki að framkvæma, er nú svo vel á veg kominn að við erum nú sú matvöruverslunarkeðja sem vex hvað hraðast í Bretlandi," bætti Walker við.

Gunnar tók undir með Walker í samtali við Viðskiptablaðið en tók þó fram að viðsnúningurinn væri hraðari en búist var við í fyrstu. ?Árangurinn er betri en við áttum von á," sagði Gunnar.