Samtök iðnaðarins völdu Iceland Travel menntafyrirtæki ársins og afhenti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunar fyrirtækinu verðlaunin á árlegum menntadegi atvinnulífsins í Hörpu í gær. Jafnframt var Landsnet valinn menntasproti ársins en félagið vinnur með HÍ, HR og Rafiðnaðarskólanum í að bjóða nemendum hagnýt lokaverkefni sem og það tekur þátt í erlendum rannsóknarverkefnum.

Dagurinn var að þessu sinni tileinkaður hlutverki skólakerfis og atvinnulífs við að búa fólk undir tæknibreytingar þær sem nú standa yfir og var yfirskrift dagsins: Hvað verður um starfið þitt? Um 250 manns úr atvinnulífi, stjórnmálum og menntakerfinu tóku þátt í dagskránni, en hægt er að horfa á upptökur frá deginum á vef Samtaka atvinnulífsins .

Halda úti fræðslustarfi fyrir starfsmenn

Iceland Travel er leiðandi ferðaskrifstofa í móttöku erlendra ferðamanna sem byggir á áratuga reynslu segir á vef samtakanna. Hefur félagið haldið úti fræðslustarfi undir merkjum Iceland Travel skólans, þar sem fjölmargir sérfræðingar hafa kennt námskeið auk þess sem starfsmenn hafa nýtt vettvanginn til að miðla af þekkingu sinni og reynslu.

Ársvelta félagsins stefnir í 14 milljarða og farþegar sem koma til Íslands á vegum Iceland Travel eru eitt hundrað og fimmtíu þúsund. Átta af hverjum tíu starfsmanna fyrirtækisins hafa lokið háskólaprófi, flestir af viðskipta, ferðamála- eða tungumálabrautum.

Rannsóknarverkefni fyrir 14 milljónir evra

Hjá Landsneti vinna um 120 starfsmenn og fyrirtækið er með starfsstöðvar í Reykjavík,  á Akureyri og Egilsstöðum. Allan sólarhringinn vinna starfsmenn í stjórnstöð fyrirtækisins við að stýra raforkukerfi Íslands sem er flóknasta kerfi landsins.

Meðal framlaga fyrirtækisins til menntunar má nefna stærsta rannsóknarverkefni sinnar tegundar í heiminum sem kostar um 14 milljónir evra og miðar að því að auka áreiðanleika flutningskerfa á sama tíma og kostnaði samfélagsins er haldið í lágmarki.

Um menntadaginn

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins, en nánar má lesa um málið á vef SA .

Í dómnefnd sátu Guðný B. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli sem var menntafyrirtæki ársins 2017, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels sem var Menntafyrirtæki ársins 2016, Sigurður Steinn Einarsson aðsstoðarmaður forstjóra hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað sem var Menntasproti ársins 2015 og Ragnheiður H. Magnúsdóttir viðskiptastjóri hjá Marel sem var menntafyrirtæki ársins 2014.