*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 26. febrúar 2006 20:12

Iceland-verslunarkeðjan hefur áhuga á Kwik Save-búðum

Ritstjórn

Breska blaðið The Business segir að Iceland-verslunarkeðjan, sem er að hluta til í eigu íslenskra fjárfesta, hafi áhuga á kaupa Kwik Save-búðir af bresku matvöruverslunarkeðjunni Somerfield.

Kaupþing banki er stór hluthafi í Somerfield, og tók þátt í að kaupa félagið fyrir 1,1 milljarð punda í fyrra. Baugur varð að hætta þátttöku vegna Baugsmálsins, en félagið er einn stærsti hluthafinn í Iceland, ásamt eignarhaldsfélaginu Fons.

Hópur fjárfesta, undir forystu Peacock-verslunarkeðjunnar, hefur samþykkt að kaupa 170-200 Kwik Save-verslanir, segja breskir fjölmiðlar. Reiknað með að heildarsöluverðið sé í kringum 200 milljónir punda, eða rúmlega 23 milljarðar íslenskra króna.

The Business segir að Iceland sé á meðal fjárfestanna, ásamt verslunarkeðjunum Netto og Aldi. Blaðið segir að Iceland, Netto og Aldi muni kaupa saman um 80 búðir.

Breskir fjölmiðlar hafa einnig sagt að Somerfield muni halda eftir hluta Kwik Save-búðanna og breyta í Somerfield verslanir.