Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,7% í 4,8 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag. Icelandair hækkaði mest allra félaga og endaði daginn í 7,5% hækkun en flugfélagið hækkaði verulega í fyrstu viðskiptum dagsins . Tilkynnt var í gærkvöldi um samkomulag við bandaríska fjárfestingasjóðinn Bain Capital um kaup á 16,6% hlut í Icelandair á ríflega 8 milljarða króna. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,57 krónum á hlut sem er nærri 10% yfir genginu í kaupum Bain sem verður 1,43 krónur.

Mesta veltan var með hlutabréf Íslandsbanka og Arion banka eða samtals 1,8 milljarðar króna. Hlutabréfaverð Íslandsbanka lækkuðu um rúmlega 0,8% en bankinn hækkað um rúmlega 5% í gær. Gengi Íslandsbanka stendur nú í 98,2 krónum á hlut sem er um 24% yfir útboðsgenginu. Arion lækkaði um 0,2% og Kvika banki sömuleiðis um 1,2%, mest allra félaga Kauphallarinnar.

Sjá einnig: Seldu sig strax út úr Íslandsbanka

Gengi Eimskips lækkaði í fyrsta skipti frá því að tilkynnt var fyrir rúmri viku um 1,5 milljarða króna sekt félagsins vegna samráðsbrota. Félagið hefur engu að síður hækkað um tæplega 13% undanfarna viku.