Gengi bréfa Icelandair er nú komið í 0,91 eftir 2,15% lækkun á hlutabréfamörkuðum kauphallar Nasdaq á Íslandi, sem er 9% lægra en útboðsgengi bréfa félagsins á dögunum. Var þetta mesta lækkunin á bréfum í einu félagi, í 84 milljóna króna viðskiptum.

Eins og fjallað hefur verið ítarlega verið um í Viðskiptablaðinu fékk Icelandair 23 milljarða króna í hlutabréfaútboði sem fram fór um miðjan síðasta mánuð, en nýju bréfin fengust á 1 krónu hvert.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa Arion banka, eða um 1,31%, niður í 75,10 krónur, í 76 milljóna króna viðskiptum en næst mesta lækkunin var á bréfum Sjóvá, eða um 0,98%, í 31 milljóna króna viðskiptum og fóru bréfin í 20,25 krónur.

Bréf TM hækkuðu mest en Úrvalsvísitalan lækkaði

Mesta hækkunin var hins vegar á bréfum TM, eða um 3,3%, upp í 37,20 krónur, í 111 milljóna króna viðskiptum. Origo hækkaði næst mest, eða um 1,38%, upp í 29,35 krónur, í 77 milljóna króna viðskiptum. Þriðja mesta hækkunin var svo á bréfum Kviku banka, eða um 0,99%, í 122 milljóna króna viðskiptum og nam lokagengi bréfa bankans eftir það 11,21 krónu.

Úrvalsvísitalan sjálf lækkaði hins vegar eða um 0,51%, niður í 2.067,55 stig, en heildarviðskiptin á hlutabréfamarkaði í dag námu 1,9 milljarði króna. Mestu viðskipin voru með bréf Haga, eða fyrir 451 milljón, en bréf félagsins hækkuðu í þeim um 0,97%, upp í 52 krónur hvert.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Eikar, eða um 225 milljónir króna, en bréf fasteignafélagsins hækkuðu í þeim um 0,07%, í 7,16 krónur. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Marel, eða fyrir 177,1 milljón krónur, en þau lækkuðu um 0,45%, niður í 664 krónur hvert.

Gengi krónunnar veiktist í dag gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, nema að hún stóð í stað gagnvart evru, sem fæst því á 161,66 krónur. Þannig styrktist Bandaríkjadalur um 0,29%, upp í 138,05 krónur, breska sterlingspundið hækkaði um 0,58% gagnvart krónu, og fæst nú á 178,52 krónur, og japanska jenið hækkað um 0,44%, up í 1,3099 krónur.