Hlutabréfaverð í Icelandair tók litlum breytingum í dag, er það hækkaði úr 2,5 í 2,51. Gengi bréfa félagsins hefur fallið um 67% frá áramótum. Markaðsvirði félagsins er nú um 13,7 milljaðra króna en markaðsvirði félagsins var vel á annað hundrað milljarðar þegar það fór hæst árið 2016. Félagið vinnur að hlutafjáraukningu en búist er við að flestum starfsmönnum þess verði sagt upp í vikunni. Búist er við að félagið eigi að óbreyttu nægt lausafé til að halda rekstrinum gangandi út maí.

Tveir þriðju af veltu með bréf í Kauphöllinni í dag voru með bréf Marel. Velta með bréf Marel námu 1,2 milljörðum króna í 27 viðskiptum. Gengi bréfa Marel hækkaði um 1,32% í viðskiptum dagsins. Alls voru 227 viðskipti í Kauphöllinni í dag og nam heildarvelta þeirra um 1,8 milljörðum króna.

Alls hækkuðu bréf tíu félaga af tuttugu á aðallista Kauphallarinnar en gengi bréfa sex félaga lækkaði. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,27% í viðskiptum dagsins.

Arion banki lækkaði mest eða um 3,23% og hafa bréf félagsins fallið næst mest allra féalga í Kauphöllinni á þessu ári eða um 34%. Þá hafa bréf Eimskips einnig lækkað um þriðjung frá áramótum en bréf félagsins hækkuðu um 1,6% í viðskiptum dagsins.

Mest hækkuðu bréf hjá Sjóvá eða um 2,75%, Símanum um 2,63% og Festi um 2,12%.