*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Innlent 16. júlí 2020 12:25

Icelandair afturkallar 139 uppsagnir

139 uppsagnir hjá Icelandair verða afturkallaðar; formaður FÍA segir að „flugmenn munu leggja sitt af mörkum,“ og að staðan sé betri en í júní.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Jón Þór Þorvaldsson, formaður félag íslenskra atvinnuflugmanna, (FÍA) segir að Icelandair hyggist afturkalla 139 uppsagnir flugmanna en 421 flugmanni var sagt upp í lok apríl. Því munu hinir 282 missa starfið 1. ágúst næstkomandi.

„Þetta eru náttúrulega góðar fréttir fyrir þá sem halda vinnunni en þungbært fyrir hina. Við bara vonum innilega að við höldum áfram að sjá aukningu á flugferðum svo að við getum komist í gegnum þennan skafl. Flugmenn munu svo sannarlega leggja sitt af mörkum svo að það megi verða,“ segir Jón Þór.

Aðspurður hvort fjöldi afturkalla sé í takt við væntingar segir Jón ekkert athugavert við útreikninga Icelandair. „Það er svo lítið skyggni, það er verið að reyna vinna viku fram í tímann. Þetta lítur betur út en í júní en við teljum að þetta sé rétt reiknað og við munum bara halda áfram að standa vaktina,“ segir Jón og bætir við að félagið muni halda samstarfi við Icelandair halda áfram.

„Við munum vera í áframhaldandi samstarfi við Icelandair. Það er bara eitt sameiginlegt markmið, það hlýtur að vera allra hagur að komast í gegnum þetta.