Í kynningu Icelandair í dag vegna breytingar á rekstri og þjónustu félagins kom fram að íslenski markaðurinn stendur aðeins fyrir um þriðjung af heildarsölu Icelandair, tveir þriðju hlutar farþeganna koma erlendis frá.

Þá kom fram að allt auglýsingafé félagsins á Íslandi var sett í herferðir erlendis.

„Markaðs- og sölufólk Icelandair brást því skjótt við og það færði áherslur í sölustarfinu frá Íslandi til útlanda. Auglýsingastarfið ytra var eflt og lögð áhersla á almannatengsl til þess að skapa ferðahug til landsins sem svo mikið var í fréttum,“ segir í tilkynningu sem gefin var út samhliða kynningunni.

Þá segir að í kjölfar falls bankanna hafi orðið mikill samdráttur á ferðamarkaðinum hér á landi og bókanir í flug Icelandair hafi dregist hratt saman hér á Íslandi.

Í kynningu Icelandair kom fram að breytt áhersla hefði borið þann árangur að á undanförnum dögum hafa bókanir fyrir flug hingað til lands aukist til muna frá því sem var á sama tíma á síðasta ári og það hefur að hluta til bætt upp fyrir samdráttinn á heimamarkaði.