Icelandair var í öðru sæti allra evrópskra flugfélaga sem eru í Evrópusambandi flugfélaga (AEA), í langflugi í septembermánuði, með 91,6% stundvísi. Á styttri flugleiðum var Icelandair í fjórða sæti af 25 alþjóðlegum flugfélögum með 89,6% stundvísi.

Evrópusamband flugfélaga (AEA) birtir reglulega gögn um stundvísi flugfélaga innan sinna raða.

Í tilkynningu frá Icelandair er haft eftir Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair, að góð stundvísi sé lykilatriði í þjónustu Icelandair. Ánægjulegt sé að fá staðfestingu á því þegar ytri aðstæður á borð við eldgos eða verkfallsaðgerðir eru ekki að trufla að flugfélagið sé í fremstu röð.