„Atvinnuástand á meðal flugmanna er betra nú en oft áður,“ segir Sindri Sveinsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að Icelandair auglýsir nú eftir tugum flugmanna til starfa vegna aukinna umsvifa.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við blaðið fjölgunina tengjast fyrirætlun flugfélagsins um að fjölga áfangastöðum um þrjá á næsta ári og fjölgun um jafn margar farþegaflugvélar. Þegar það hefur gengið eftir verða áfangastaðir Icelandair 38 talsins. Þegar mest verður verða þoturnar 21 talsins.