Icelandair hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á fjórum Boeing 737 MAX flugvélum. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Vélarnar eru framleiddar árið 2018 og gert er ráð fyrir að þær verði afhentar haustið 2022. Með þessari viðbót verður félagið með átján 737 MAX vélar í rekstri.

Icelandair komst að samkomulagi við Dubai Aerospace Enterprise (DAE) í byrjun árs um langtímaleigu á tveimur nýjum Boeing 737 MAX 8 flugvélum. Með þeirri viðbót var félagið komið með fjórtán MAX vélar fyrir sumarið.

Nú er ljóst að félagið verður með átján vélar í rekstri haustið 2022.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Það er ánægjulegt að halda áfram að fjölga Boeing 737 MAX vélum í flotanum okkar á góðum kjörum. Þær eru af nýrri kynslóð umhverfisvænni flugvéla og því mikilvægur þáttur í að draga úr kolefnislosun í starfsemi okkar. Við höfum aukið starfsemina jafnt og þétt eftir heimsfaraldurinn og höldum nú úti mjög öflugu leiðakerfi sem tengir Evrópu og Norður-Ameríku í gegnum Ísland. Í sumar fljúgum við í beinu flugi til 44 áfangastaða erlendis, allt að fimm sinnum á dag. Þessi viðbót við flotann gefur okkur tækifæri til þess að auka þjónustuna enn frekar með því að bæta við áfangastöðum og auka tíðnina á þá staði sem við fljúgum til nú þegar.“