Verulegur viðsnúningur varð á rekstri Icelandair Group árið 2010, en hagnaður félagsins nam á árinu 4,6 milljörðum króna eftir skatta og fjármagnsliði, samanborið við 10,7 miljarða króna tap árið 2009.

Það er löngu vitað að Icelandair er hryggjarstykkið í Icelandair Group samstæðunni og ber hana uppi að mestu leyti. Þó er fróðlegt að rýna í ársreikninga systurfélaganna þó svo að þau séu flest agnarsmá í samanburði við Icelandair. Ársreikningarnir eru nú opinberir í fyrsta sinn og fjallað er um þá í Viðskiptablaðinu.

Í kynningu á ársuppgjöri Icelandair Group fyrir árið 2010 kemur fram að tekjur Icelandair nema 59% af tekjum Icelandair Group. Tekjur Icelandair námu tæpum 63 milljörðum króna á árinu og hagnaður félagsins var um 4,1 milljarður króna, samanborið við hagnað upp á 1,9 milljarða árið 2009 og jókst því um tæpa 2,2 milljarða króna á milli ára. Hagnaður fyrir skatta nam 5 milljörðum króna, samanborið við 2,4 milljarða árið 2009.

Til gamans má geta þess að árið 2010 gaus í Eyjafjallajökli en þrátt fyrir það var árið 2010 besta uppgjörsár í sögu félagsins. Tekjur félagsins jukust því nokkuð umfram gjöld á árinu. Þannig jukust rekstrartekjur félagsins um 7,3 milljarða króna á milli ára á meðan rekstrargjöld félagsins jukust um 5,3 milljarða. Fyrir utan eldneytiskostnað, sem nam 13,8 milljörðum á árinu, er launakostnaður stærsti útgjaldaliðurinn.

Eigið fé félagsins jókst jafnframt töluvert á milli ára, eða um tæpa 4,5 milljarða króna. Þó hækkuðu skuldir félagsins um tæpan milljarð króna, en þar af námu skammtímaskuldir Icelandair um 17 milljörðum króna í árslok.

Nánar er fjallað um ársreikninga dótturfélaga Icelandair Group í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.