*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 19. ágúst 2020 07:25

Icelandair birtir kynningu fyrir útboð

Hlutafjárútboð Icelandair fer fram 14.-15. september fáist samþykki hluthafa. Félagið stendur betur en búist var við.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Icelandair Group birti seint í gærkvöldi kynningu fyrir 20 milljarða króna útboð félagsins. Útboðið á að fara fram dagana 14.-15. september að því gefnu að hluthafar samþykki það á hluthafafundi þann 9. september. Ráðgert er að eiginleg skráningarlýsing verði birt í nsætu viku. 

Í kynningunni eru framtíðaráætlun félagsins rakin til 2024, en þá er búist við því að flugrekstur verði komin í svo gott sem samt horf. Þá er einnig fjallað um samninga sem félagið hefur gert í sumar við starfsmenn, Boeing, ríkið og helstu kröfuhafa, sem voru forsendur fyrir því að farið væri í útboðið.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að þrátt fyrir faraldurinn, hafi félagið haldið uppi takmarkaðri en arðbærri flugáætlun í sumar og gripið tækifæri í fraktflutningum og leiguflugi. Félagið sé í sterkari stöðu en búist var við á þegar hluthafafundur félagsins var haldinn 22. maí þar sem hluthafar samþykktu upphaflega að fara í hlutafjárútboð.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Viðskiptamódel Icelandair Group hefur margsannað sig og við förum bjartsýn inn í það hlutafjárútboð sem nú er framundan. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á félagið á liðnum mánuðum líkt og öll önnur flugfélög í heiminum. Fjárhagsstaða félagsins var góð áður en faraldurinn skall á og í kjölfar þeirra aðgerða sem við höfum gripið til og þeirra áætlana sem við höfum gert til framtíðar, hefur félagið alla burði til að koma sterkt út úr honum. Félagið býr yfir verðmætum innviðum, frábæru starfsfólki og mikilvægum viðskiptasamböndum. Þá er leiðakerfi Icelandair sveigjanlegt og byggir á einstakri staðsetningu Íslands sem tengimiðstöðvar á milli Norður Ameríku og Evrópu.

Icelandair gegnir lykilhlutverki í flugi til og frá Íslandi og mun, hér eftir sem hingað til, leggja áherslu á að tryggja öflugar flugsamgöngur og um leið aukin lífsgæði hér á landi. Ísland verður áfram eftirsóttur áfangastaður og við búumst við að tækifæri skapist á ný fyrir tengiflug yfir Atlantshafið þegar fram í sækir. Við leggjum höfuðáherslu á arðsemi leiðakerfisins og að viðhalda sveigjanleika til að geta brugðist hratt við breytingum á markaði. Í kjölfar hlutafjárútboðsins verður félagið enn betur í stakk búið til að grípa þau tækifæri sem gefast þegar eftirspurn eftir flugi eykst á ný.“