Las Palmas á Gran Canaria er nýr áfangastaður í leiðakerfi Icelandair. Flug til áfangastaðarins er komið í sölu en fyrsta flug er 15. nóvember. Greint er frá þessu til fréttatilkynningu.

Icelandair hefur áður flogið til Las Palmas í leiguflugi fyrir ferðaskrifstofur en nú er í fyrsta sinn boðið upp á áætlunarflug þangað. Flogið verður einu sinni í viku frá 15. nóvember 2022 til 11. apríl 2023. Brottför frá Keflavík er klukkan 9:30 á þriðjudögum.

„Gran Canaria er þriðja stærsta eyja Kanaríeyjaklasans og hefur upp á margt að bjóða þegar kemur að afþreyingu. Íbúar eru 870 þúsund og eyjan er oft kölluð litla heimsálfan vegna fjölbreytts landslags, veðráttu og náttúru. Þar eru eldfjöll, gljúfur, sandöldur, strendur, skógar og vínhéruð,“ segir í tilkynningu Icelandair.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Það er spennandi að bæta Gran Canaria inn í leiðkerfið okkar sem nær nú til um 40 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku. Í fyrra bættum við Tenerife í áætlun okkar og höfum við fengið mjög góð viðbrögð frá okkar viðskiptavinum og sérstaklega Íslendingum sem sækja í sólina. Eftir samþættingu Icelandair og ferðaskrifstofunnar VITA hafa skapast spennandi tækifæri eins og þessi til þess að efla leiðakerfi okkar og auka þjónustuna við viðskiptavini.“

Tilkynning Icelandair um nýjan áfangastað í leiðakerfi félagsins kemur einungis klukkustund eftir að helsti samkeppnisaðilinn, Play, tilkynnti að félagið ætli að hefja flug til Porto í Portúgal í apríl á næsta ári.