Icelandair hefur gert breytingu á flugáætlun sinni til loka október vegna kyrrsetningar á Boeing 737 MAX vélum félagsins. Áður hafði félagið miðað við að vélarnar myndu fara í loftið þann 15. september en er nú útlit fyrir að áhrif kyrrsetningarinnar muni vara lengur en reiknað var með að því er fram kemur í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar.

Icelandair hefur í sumar verið með fimm leiguvélar í flota sínum til að lágmarka áhrif kyrrsetningarinnar á farþega. Leigusamningar tveggja þeirra munu renna út í lok ágúst en þrjár þeirra verða í rekstri út september. Samkvæmt tilkynningunni er unnið að því að útfæra leigusamning einnar vélarinnar út október.

Vegna breytinganna mun sætaframboð félagsins á tímabilinu 16. september til 26. október dragast saman um 4% frá því sem áður var áætlað en sætaframboð Icelandair yfir sumarið hefur lækkað um 5% frá því sem áætlað var upphaflega. Fjárhagsleg áhrif kyrrsetningarinnar eru enn óviss á þessu stigi, m.a. vegna þess að ekki liggur fyrir hversu mikið af þeim kostnaði sem hlýst af kyrrsetningunni fæst bættur frá framleiðanda.

Bogi Nils Bogason sagði í viðtali við Viðskiptablaðið á dögunum að hann teldi óhugsandi að Boeing myndi ekki bæta flugfélögum skaðann af kyrrsetningu vélanna en nákvæmlega hversu mikið og hvernig væri erfitt að segja til um.