Icelandair hefur ákveðið að gera breytingar á vetraráætlun næsta vetrar og draga úr framboði til þess að mæta auknum kostnaði vegna eldsneytisverðhækkana. Helstu breytingar eru þær að vetrarhlé verður lengt í flugi til og frá Minneapolis og heilsársflugi til Toronto og Berlín er frestað.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Flug til og frá Toronto í Kanada hófst í vor og mun halda áfram vorið 2009 eftir vetrarhlé. Hlé var gert á flugi til Minneapolis á síðasta vetri og nú verður það hlé lengt veturinn 2008-2009 og stendur frá októberlokum fram í mars.

Á síðasta vetri var ekki flogið til Berlínar og áformum um heilsársflug þangað hefur verið frestað. Fleiri breytingar hafa verið gerðar á vetraráætlun félagsins, meðal annars verður dregið úr flugi til Parísar en flug aukið til New York. Einnig verða felld út einstök flug á nokkrum leiðum.

Þeir farþegar sem áttu bókanir á þeim flugum sem felld hafa verið niður eru látnir vita og samkvæmt reglum um breytingar á áætlun er þeim boðin endurgreiðsla eða önnur ferðatilhögun.

Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri Icelandair segir félagið vera að bregðast við „gífurlegum“ hækkunum á eldsneyti eins og öll flugfélög í heiminum. Hann segir að frá hafi flugeldsneytið hækkað um 60% og það hafi sexfaldast í verði á nokkrum árum.

„Bókunarstaða Icelandair er í raun góð, en eldsneytiskostnaðurinn veldur því að fækka verður flugum og auka nýtingu í hverju flugi. Við gerum þessar breytingar með góðum fyrirvara og látum alla farþega vita af breytingunni," segir Birkir Hólm.